Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 370/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 370/2023

Miðvikudaginn 20. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 27. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. maí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 2.506.623 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júlí 2023. Með bréfi, dags. 2. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi alltaf unnið eins og skepna, sérstaklega áður fyrr á vertíðum í heimabæ sínum. Hún hafi flutt til B fyrir mörgum árum og látið drauma sína rætast. Hún hafi klárað stúdentinn, […]. Hún hafi svo fengið draumavinnuna í […] á B og unnið við það í X ár. Þá hafi höggið komið, hún hafi greinst með vefjagigt og svæsna slitgigt sem valdi miklum kölkunum í liðum sem enginn skilji hjá svona ungri konu. Hún sé búin að fara í fjöldan allan af aðgerðum sem hafi tekist vel eftir aðstæðum. Svo hafi kæranda verið sagt að hún yrði að hætta að vinna vegna hættu á að sagan endurtæki sig, þ.e. vegna kalkana. Það hafi verið mjög erfiður tími fyrir hana andlega því hún hafi elskað vinnuna sína. Hún hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri um tíma. Kærandi sé öryrki en alla hennar ævi hafi hún greitt sína skatta og skyldur og að henni sé hegnt fyrir það sé henni alveg óskiljanlegt. Hún hafi greitt í lífeyrissjóði alla tíð og það séu peningar sem hún eigi.

Krafa Tryggingastofnunar ríkisins sé út í hött, hún hafi átt veglega inneign hjá lífeyrissjóði. Hún hafi fengið greitt frá Tryggingastofnun ríkisins og allt hafi verið reiknað aftur. Uppgjör Tryggingastofnunar sé vegna ársins 2022 en stofnunin taki einnig inn í þann reikning hálft árið 2021. Það sé rangt.

Kærandi hafi ekki beðið um að verða öryrki. Fótunum hafi verið gjörsamlega sparkað undan henni. Það eina sem hún geti gert og geri eins vel og hún geti sé að vinna í sjálfinu og endurhæfa sig á líkama og sál.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

Um útreikning endurhæfingar- og örorkulífeyris og tengdra greiðslna hafi verið fjallað í III. kafla þágildandi laga um almannatryggingar nr. 100/2007, sbr. 13. gr. þágildandi laga um félagslega aðstoð. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt þágildandi 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars endurhæfingar- og örorkulífeyris og tengdra greiðslna, sbr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. ákvæðisins hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi almannatryggingalaga.

Samkvæmt 4. mgr. 18. gr. og 3. mgr. 22. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi endurhæfingar- og örorkulífeyrir og tengdar greiðslur lækkað um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn hafi fallið niður. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. þágildandi laga um félagslega aðstoð hafi heimilisuppbót einnig lækkað um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans uns hún hafi fallið niður.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast meðal annars á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna, þar sem hafi sagt að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kærandi hafi þegið endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun frá 1. janúar til 30. júní 2022 og örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 1. júlí til 31. desember 2022. Kærandi hafi skilað tekjuáætlun fyrir árið [2021] þann 8. júlí 2021. Þar hafi verið áætlað að kærandi kæmi ekki til með að hafa neinar tekjur á árinu 2021. Þegar endurhæfingartímabili kæranda hafi verið framlengt með bréfi, dags. 3. janúar 2022, hafi sama tekjuáætlun verið lögð til grundvallar útreikningi greiðslna og hafi kærandi verið upplýst um þær tekjuforsendur með bréfi sama dag um endurmat endurhæfingarlífeyris. Kærandi hafi því fengið greitt á grundvelli þeirra tekjuforsendna frá 1. janúar til 31. október 2022. Kærandi hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun á pappír þann 30. september 2022. Á henni hafi kærandi áætlað að hún kæmi til með að hafa 5.135.117 kr. í lífeyrissjóðsgreiðslur á árinu 2022. Með bréfi, dags. 3. október 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar hefði bótaréttur ársins verið endurreiknaður og að fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð 2.193.800 kr. sem yrði þó ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins sem hafi síðan farið fram vorið 2023. Kærandi hafi fengið greitt á grundvelli uppfærðra tekjuforsendna frá 1. nóvember til 31. desember 2022.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur kæranda á árinu 2022 hafi legið fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum hafi komið í ljós að kærandi hafi í raun haft 5.905.057 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 254.520 kr. úr séreignarsjóði og 1.824 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2022. Samkvæmt því höfðu tekjur kæranda verið vanáætlaðar á áðurnefndum tekjuáætlunum og hafi hún því fengið ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2022. Með bréfi, dags. 23. maí 2023, hafi kæranda verið tilkynnt um niðurstöður endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022. Þar hafi komið fram að heildargreiðslur til kæranda á árinu hafi numið 3.896.359 kr. en að réttindi 2022 samkvæmt skattframtali 2023 hafi einungis numið 705.059 kr. Kæranda hafi þannig verið ofgreidd tekjutengd réttindi um fjárhæð sem nemi 3.191.300 kr. Að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi niðurstaðan því verið skuld að fjárhæð 2.506.623 kr.

Örorkulífeyrir og tengdar greiðslur sem greiddar séu samkvæmt almannatryggingalögum, sem og endurhæfingarlífeyrir og tengdar greiðslur sem greiddar séu samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, séu tekjutengd réttindi. Í því felist að tekjur lífeyrisþegans hafi tiltekin skerðandi áhrif á fjárhæð áðurnefndra greiðslna, sbr. 4. mgr. 18. gr. og 3. mgr. 22. gr. þágildandi almannatryggingalaga.

Í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði hafi því verið tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun skyldi miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt hafi þær undantekningar verið tilgreindar sem stofnuninni hafi borið að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar hafi verið lagðar 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins í samræmi við 5. mgr. 16. gr. þágildandi almannatryggingalaga. Tekjurnar hafi verið áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá kæranda um tekjur sínar. Tryggingastofnun hafi upplýst kæranda um forsendur bótaútreikningsins, minnt á skyldu hennar til þess að tilkynna stofnunni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á greiðslur og gefið henni kost á að koma að athugasemdum, sbr. 9. mgr. 16. gr. þágildandi laga.

Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli endanlegra upplýsinga um tekjur greiðsluþega á árinu sem liggi þá fyrir, sbr. 2. mgr. 33. gr. núgildandi almannatryggingalaga.

Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega sé stofnuninni skylt að endurkrefja það sem ofgreitt hafi verið í samræmi við 34. gr. laganna. Meginreglan sé því sú að ef tekjur þær sem lagðar séu til grundvallar endurreikningi reynist hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður þá skuli sú ofgreiðsla endurkrafin. Skipti þá ekki máli hvort greiðsluþegi hafi getað séð fyrir þessa tekjuaukningu eða breyttu aðstæður. Niðurstaða um það að ofgreiðsla hafi átt sér stað liggi því ekki endanlega fyrir fyrr en við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna.

Tryggingastofnun vilji þó benda kæranda á að hún geti óskað eftir því við skattyfirvöld að sá hluti eingreiðslu lífeyrissjóðsréttinda frá C lífeyrissjóði á árinu 2022 sem teljist til uppsafnaðra réttinda fyrir árið 2021 verði færður á skattframtal þess árs. Yrðu þá tekjutengd réttindi kæranda hjá Tryggingastofnun á árunum 2022 og 2021 í kjölfarið endurreiknuð á grundvelli nýrra tekjuforsendna. Tryggingastofnun hafi útbúið dæmi um niðurstöður endurreiknings og uppgjörs áranna 2021 og 2022 ef slík tilfærsla á tekjum milli skattára ætti sér stað, sbr. bréf dags. 21. júlí 2023. Af þeim megi ráða að slík tilfærsla kæmi ekki til með að vera hagstæð fyrir kæranda gagnvart Tryggingastofnun þar sem ofgreiðsla vegna ársins 2021 myndi hækka meira en ofgreiðsla ársins 2022 myndi lækka sem um nemi 85.942 kr. Yrði því samanlögð skuld vegna ofgreiðslu áranna 2021 og 2022 2.592.565 kr. Stofnunin geti auk þess ekki sagt til um hvaða áhrif það hefði á réttindi eða ívilnanir sem kærandi njóti hjá öðrum opinberum aðilum.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta.

Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 23. maí 2023 um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022 verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun frá 1. janúar til 30. júní 2022 og örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun frá 1. júlí til 31. desember 2022. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laganna ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Kærandi skilaði inn tekjuáætlun fyrir árið 2021 þann 8. júlí 2021 þar sem ekki var gert ráð fyrir tekjum á tímabilinu. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. janúar 2022, var endurhæfingartímabil kæranda framlengt á grundvelli sömu tekjuáætlunar. Kærandi fékk greitt miðað við þær forsendur á tímabilinu 1. janúar til 31. október 2022. Þann 30. september 2022 skilaði kærandi inn nýrri tekjuáætlun þar sem hún gerði ráð fyrir að fá 5.135.117 kr. í lífeyrissjóðstekjur árið 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. október 2022, var kæranda tilkynnt að á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar hennar hefði stofnunin endurreiknað bótarétt hennar. Niðurstaðan var ofgreiðsla að fjárhæð 2.193.800 kr. sem yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri ársins. Tryggingastofnun greiddi kæranda örorkulífeyri, á tímabilinu 1. nóvember til 31. desember 2022, miðað við nýjar tekjuforsendur.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2022 reyndust tekjur kæranda á árinu hafa verið 5.905.057 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 254.520 kr. í greiðslur úr séreignarsjóði og 1.824 kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós 2.506.623 kr. ofgreiðslu á árinu 2022, nánar tiltekið var um ofgreiðslu að ræða í bótaflokkunum tekjutryggingu, heimilisuppbót, orlofs- og desemberuppbætur og sérstakri uppbót til framfærslu sökum tekna.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2022 en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur sem eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að umræddir tekjustofnar voru vanáætlaðir í tekjuáætlun. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2022.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum